Upplýst - gegn gervivísindum og heilsusvindli

Þorsteinn Vilhjálmsson prófessor emeritus
Þorsteinn Vilhjálmsson

Upplýst minnist hins mæta vísindamiðlara og fræðimanns Þorsteins Vilhjálmssonar (1940 – 2025) en hann lést 10. maí síðastliðinn á 85. aldursári. Hann var eðlisfræðingur og mikill áhugamaður um sögu vísinda og fræðslu um þau. Í þeim efnum var hann frumkvöðull á Íslandi. Eftir að hafa dúxað í MR lærði hann eðlisfræði í Danmörku og varð prófessor við HÍ. Hann lærði svo vísindasögu og hóf skrif um hana til miðlunar fyrir almenning. Margar greinar, bókarkaflar og bækur liggja eftir hann. Líklega er þar þekktust stórt ritverk hans Heimsmynd á hverfanda hveli sem fjallar um sögu vísinda í tveimur bindum (1986 og 1987). Hann var aðal hvatamaður stofnunar Vísindavefs HÍ, ritstýrði vefnum og skrifaði þar talsvert fræðsluefni. Árið 2011 fékk Þorsteinn riddarakross fálkaorðunnar „fyrir framlag til vísinda, kennslu og miðlunar fræðilegrar þekkingar til almennings.“ Við í Upplýst minnumst með þakklæti þessa mæta manns sem gaf svo mikið til samfélagsins og miðlun vísinda. Á raunvísindasöguvef HÍ má lesa nánar um ævi og störf Þorsteins.