Menntun og fræðsla
Fagfólk innan Upplýst veitir eftirfarandi þjónustu eftir samkomulagi:
Fyrirlestrar (1 – 2 kennslustundir). Velja má um eftirfarandi efni:
- Hvað einkennir vísindi og hvað gervivísindi? Hver eru alvarleg viðvörunarmerki sem geta sagt manni strax að um gervivísindi sé að ræða?
- Hvað er satt og hvað er logið um bólusetningar? Hver er skaðinn af stríði gegn bólusetningum?
- Hver eru þekktustu gervivísindafögin og hvers vegna eru þau óvísindaleg?
- Hvernig notar maður grundvöll í rök- og þekkingarfræði til viðbótar við raunvísindi til að þekkja gervivísindi og heilsusvindl?
- Vísindalæsi. Hvað gerir vísindatilraunir og klínískar rannsóknir að traustum bakgrunni þekkingar? Hvað þýða helstu hugtökin í vísindagreinum og hvað aðskilur góða notkun þeirra frá slæmri?
- Vitrænn óheiðarleiki og vitræn misklíð. Hvernig spilar manngerð, gildismat og gagnrýnin hugsun inn í tilurð gervivísinda og heilsusvindls?
Efni fyrirlesturs má einnig ræða og finna út eftir áhuga og þörfum umbeiðenda.
Hver fyrirlestur inniheldur um 25 – 30 mínútur af framsögu og 10 – 15 mínútur af umræðu. Séu tímarnir 2 eða fleiri í röð er hægt að viðhafa annað skipulag eftir samkomulagi.
Umræðutímar. Panta má umræðu- eða rökræðutíma (40 – 60 mínútur) fyrir hópa með eða án notkunar dæma til umræðu um ofangreind efni fyrirlestra eða önnur tengd, eftir samkomulagi. Æskilegt er að hópar í umræðum séu að lágmarki með 4 einstaklingum en að hámarki 30. Heppileg stærð er 6 – 12 manns.
Námskeið. Þau eru ekki komin á dagskrá eins og er. Þau verða tilkynnt hér og á forsíðu þegar þau verða sett í gang.
Í námskeiðum verður farið ítarlegar í gegnum vísindalæsi, fræðileg skilyrði þekkingar og muninn á þekkingu og blekkingu. Skoðuð verða dæmi um þekktustu gervifögin og farið yfir ástæður þess að þau standast ekki vísindalega skoðun. Ýmis áhrif gervivísinda á einstaklinga og samfélög verða kynnt og rædd. Séu námskeiðin fyrir ákveðna faghópa er skoðað hvernig gervivísindi snerta viðkomandi fög og vinnu fagfólks við þau.
Gjöld. Föst verðskrá er ekki ákveðin í bili og verð fer eftir samkomulagi. Um er að ræða heilsutengda fræðslustarfsemi án álagningar virðisaukaskatts. Fyrirspurnir sendist á netfang okkar upplyst@upplyst.is