Upplýst - gegn gervivísindum og heilsusvindli

Markmið og viðfangsefni

Upplýst-hópurinn er þverfaglegur hópur fagfólks sem var stofnaður árið 2012 með það markmið í huga að fræða um vísindi og ósannreynda heilsustarfsemi og gervivísindi. Hópurinn berst gegn ýmiskonar bábiljum og svindli tengdum heilsu og matvælum sem vaða uppi í samfélaginu.

Upplýst-hópurinn leitast til við að veita vandaða og óháða almenningsfræðslu á aðgengilegan máta. Mest af þeirri starfsemi fer fram í gegnum vefsíðuna Upplyst.is (áður Upplyst.org) en fólk í hópnum er einnig tilbúið að koma fram í fjölmiðlum eða flytja fyrirlestra um efnið.

Sumt það sem við í Upplýst hópnum gagnrýnum eru aðferðir eða söluvara sem ganga gegn lögum og reglugerðum um neytendavernd, t.d. órökstuddar fullyrðingar um heilsufarsáhrif á umbúðum matvæla og fæðubótarefna. Flest umfjöllunarefnið varðar þó ekki við lög en telst gagnrýnivert og á ýmsan máta varasamt, sbr. ýmis gervifræði sem gefa fólki rangar hugmyndir um mannslíkamann og heilsu.  Sjá nánari skilgreiningar á viðfangsefnum hópsins í greininni Gervifræði og gervilækningar – hugtökin.

Gagnrýni upplýst-hópsins á gervifög stýrist ekki af andúð við fólkið sem iðkar þau heldur áhyggjum af því að gervifræði nái að fanga hugi fleira fólks og að mikil vinna og tími iðkenda fari í að læra og ástunda gagnslausa hluti. Af sjálfsögðu lítur það ekki þannig út í augum hins sannfærða græðara og gagnrýni okkar túlkast þá sem óvelkomin árás á vinnu þeirra. Það er miður en gagnrýnin hér er út frá velvilja og því markmiði að byggja upp og skila velgjörð.  

Þegar fólk er gjörsamlega sannfært um að nýju fötin keisarans séu í raun hin fallegustu og nytsamlegustu föt, þá hljómar sannleikurinn um að það standi í raun nakið, ákaflega særandi. Það er ekki ætlun Upplýst-hópsins að særa þá sem telja gervilækningar góðar og gildar, heldur koma á framfæri málefnalegri gagnrýni á þær.

Upplýst-hópurinn samanstendur af þverfaglegu teymi fólks úr hinum ýmsu greinum raunvísinda, hugvísinda og heilbrigðisstétta. Við vonumst til að þið njótið efnisins hér og það vekji hjá ykkur hugsun um það og umræður.