
Eitt af einkennum ógagnrýnar hugsunar er óheft flæði tenginga á milli fyrirbæra. Hér er dæmi um slíkt. Framleiðandi þessara meðalaglasa (Náttúrudropa Kristbjargar) leyfir sér að tengja efni meðalanna við hugarfarslegar dygðir (sjálfsagi) eða gildi (sætti, helgur kærleikur). Hvernig þetta er hugsað nákvæmlega er erfitt að segja til um en hér er væntanlega gefið í skyn að með inntöku meðalanna aukist t.d. sjálfsagi. Undirtitill þess glass er „ÉG ER sterk og öguð sál“ og yfirflokkur „Vitund II“. Meðalið á einhvernveginn að koma þessu til skila.
Það segir sig sjálft að dropi einhvers náttúruefnis (eða hvaða efnis sem er) mun ekki skapa sjálfsaga í manneskju. Hinsvegar getur hugsunin um aukinn sjálfsaga þegar notandinn tekur inn dropann orðið að huglægu tákni þess að manneskan ætli að huga að meiri sjálfsaga. Þetta tákn er það sem kallað er „merkingaráhrif“ (meaning effect) sem lýsir til dæmis áhrifum (hughrifum) hughreystingar (heiðarleg notkun) eða lyfleysuhrifa (óheiðarleg notkun). Lyfleysuhrif (placebo effect) eru fengin með því að a) gefa lyfleysu (hér: sjálfsaga-dropinn) og b) planta í leiðinni þeirri fölsku hugmynd að lyfleysan (dropinn hér) bæti ákveðna líðan, sem í þessu tilviki er þá tilfinning um skort á sjálfsaga. Þetta mætti gera heiðarlega með því að eiga samtal við manneskju og hvetja hana og hjálpa við að auka sjálfsaga sinn, en hér er það gert með söluvöru sem kostar fé og aflar framleiðandanum tekna.
Lyfleysuhrif eru ágætlega rannsökuð og það er þekkt að eftir því sem lyfleysan er í flottari og meira sannfærandi umbúðum, virkar hún sterkar á líðanina. Framleiðandinn leggur sig því fram við að hafa vöruna aðlaðandi og koma að jákvæðum skilaboðum eins og „ÉG ER kærleiksrík og gefandi sál“, sem er eitthvað sem neytandanum þykir þægilegt að lesa, taki hann fullyrðinguna til sín.
Það er áhugaverð spurning í þessu sambandi, að vita hvort framleiðandinn trúi því sjálfur að náttúrudropinn skili meiri sjálfsaga hjá neytandanum eða hvort hann viti af því að hann sé að blekkja neytandann? Í fyrra tilvikinu er um ógagnrýna hugsun út frá röklegri hugsun eða vísindalegri færni, því meðöl skila ekki sjálfsaga, heldur eykst hann með viljastýrðu hugsanaferli. Í seinna tilvikinu er um ógagnrýna hugsun út frá siðferðilegri hugsun því viljandi blekking og gjaldtaka fyrir lyfleysuhrif er ekki siðferðilega réttmætt athæfi. Það er leikur að viðteknu trausti fólks og vilja þess til að véfengja ekki „fagfólk“ að ósekju. Í því viðbúna trausti er framleiðandinn að notfæra sér það til að afla sér tekna. Lyfhrifin virka sem hvatning í þann tíma sem notandinn heldur í minni þeirri hugmynd að meðalið auki sjálfsagann. Svo er það gleymt og óvíst hvort hin keypta hvatning hafi stuðlað að sjálfsaga eða bara gefið um stund þá líðan að sjálfsagin muni aukast. Þetta er leikur að tilfinningum og væntingum fólks. Sumir gerendur af þessu tagi hafa réttlætt blekkinguna með því að betri líðan fólks sé þess virði, óháð raunverulegum árangri. Sumir notendur taka meira að segja undir þessa réttlætingu, en þá er það spurningin hvort þeir séu að meina þegar aðrir verða fyrir blekkingunni en ekki þeir sjálfir? Hver vill vera blekktur eða reisa mynd sína af veruleikanum á blekkingu?